top of page
category_26.jpg

Um félagið

Stutt samantekt

Föstudaginn 5. desember 1941 komu saman 33 austfirskar konur og ákváðu að stofna félagsskap meðal austfirskra kvenna í Reykjavík og var ákveðið að nefna félagið Félag austfirskra kvenna í Reykjavík.

Stofnfundur félagsins var haldinn 2. janúar 1942 og þar var fyrsta stjórn félagsins kosin.

Í fyrstu stjórn félagsins voru kjörnar Guðný Vilhjálmsdóttir formaður, Anna Johannessen varaformaður, Anna Wathne gjaldkeri, Bergljót Guttormsdóttir ritari og Elísabet Kvaran vararitari. Félagsgjald var ákveðið 5 krónur. Til gamans má  geta þess að á 80 ára afmæli félagsins, árið 2021, var félagsgjaldið komið upp í 2.500 krónur.

Á stofnfundinum skráðu 57 konur sig í félagið en á 40 ára afmæli þess voru þær 150 talsins.

Í lögum félagsins kom fram að markmið félagsins væri að binda sterkari átthaga- og félagsböndum þær austfirsku konur sem búsettar eru í Reykjavík eða dvelja þar vetrarlangt. Félagið reyndi að greiða sem best götu þeirra Austfirðinga sem komu til höfuðborgarinnar og þurftu á hjálp að halda, ekki síst á kreppuárunum. Einnig að styrkja ungar stúlkur til menntunar og styðja við austfirska sjúklinga sem þurftu að dvelja á sjúkrastofnunum í Reykjavík. Má nefna að gefnar voru gjafir til austfirskra ellilífeyrisþega og jólagjafir til Austfirðinga sem lágu á sjúkrahúsum í Reykjavík yfir jólahátíðina.

Árið 1946 hóf félagið að halda árlega skemmtisamkomur með kaffiveitingum fyrir aldraðar austfirskar konur í Reykjavík. Þremur árum síðar var körlum einnig boðið á þessar samkomur og hélt félagið þessum samkomum áfram allt þar til Félagsmálastofnun Reykjavíkurborgar fór að standa fyrir tómstundastarfi fyrir aldraða.

Með árunum hafa markmið félagsins breyst og nú leggur félagið ýmsum góðgerðarfélögum lið og styðja við þá sem minna mega sín eða þurfa stuðning vegna veikinda eða áfalla. Aðstoðin er ekki eingöngu bundin við Austfirðinga í dag. Félagið hefur í gegnum árin stutt við hvers konar góðgerðamál, svo sem Krabbameinsfélagið, Félag langveikra barna, Grensás, Hjálpræðisherinn, Mæðrastyrksnefnd og Ljósið, svo eitthvað sé nefnt. Félagið hefur einnig gefið fé til ýmissa verkefna á Austurlandi, t.d. til tækjakaupa á heilbrigðisstofnanir fyrir austan.

Félagið hefur aflað fjár með t.d. happdrætti, basar og kaffisölu á félagsfundum. Einnig hafa minningarspjöld verið til sölu allt frá árinu 1947.

Félagsfundir eru venjulega haldnir fyrsta mánudagskvöld í mánuði yfir vetrarmánuðina en hlé er á starfinu yfir sumarmánuðina. Félagið býður velkomnar til inngöngu í félagið allar konur sem áhuga hafa á því að starfa til góðs í samfélaginu. 

Konur sem hafa áhuga á að kynna sér starfsemi félagsins eru velkomnar á félagsfund í þeim tilgangi eða sem gestir félagskvenna. Ekki er skilyrði um inngöngu í félagið en greiddur er aðgangur að kaffihlaðborði félagsfunda, kr. 2.000 pr. einstakling. 

Formenn félagsins frá upphafi eru eftirfarandi:

Guðný Vilhjálmsdóttir frá Seyðisfirði        

1942 – 1966, í  samtals í 24 ár

Anna Jóhannessen frá Seyðisfirði 

1966 – 1978, í  samtals í 12 ár

Sigríður Helgadóttir frá Vopnafirði 

1978 – 1998,  í samtals í 20 ár

Sonja Berg frá Fáskrúðsfirði

1998 – 2002, í  samtals í 4 ár

Sigurbjörg Bjarnadóttir frá Fáskrúðsfirði

2002 – 2017, í samtals í 15 ár

Björg S. Blöndal frá Eskifirði/Seyðisfirði

2017 – 2023, í samtals í 6 ár

Oddný Vala Kjartansdóttir frá Stöðvarfirði 

2023 - 

Félagið er opið fyrir allar konur sem áhuga hafa á því að starfa til góðs í samfélaginu. Konur sem hafa áhuga á að kynna sér starfsemina eru velkomnar á félagsfund í þeim tilgangi eða sem gestir félagskvenna. Ekki er skilyrði að ganga í félagið en greiða þarf 2.000 kr. pr. einstakling inn á fundinn, sem gefur aðgang að glæsilegu kaffihlaðborði.

 

Austfirskar

  • Facebook

©2023 by Austfirskar. Proudly created with Wix.com

bottom of page