Dásamleg dagsferð í Borgarfjörðinn
- Stjórnin
- May 30, 2024
- 1 min read

Laugardaginn 25. maí síðastliðinn lögðu 35 hressar félagskonur af stað í rútu frá Grensáskirkju í dagsferð félagsins í Borgarfjörðinn. Veðrið var bjart og hugur í mannskapnum.
Hraunfossar og Barnafoss í Hvítársíðu voru fyrstu áfangastaðir í ferðinni, þar sem gefin var góð stund til að njóta náttúrufegurðarinnar á svæðinu. Síðan var ekið inn í Húsafell þar sem snæddur var hádegisveður á Bistró Húsafelli. Að loknum hádegisverði fór hópurinn yfir að Húsafellskirkju þar sem Halldór Gísli Bjarnason tók á móti hópnum og fræddi hann um sögu staðarins. Var erindi hans bæði skemmtilegt og fróðlegt.
Síðasti áfangastaðurinn í ferðinni var svo Reykholt með allri þeirri sögu sem staðurinn býr yfir. Hópurinn skoðaði Snorralaug og umhverfið og endaði síðan í kaffi og nýbakaðri súkkulaðiköku á Fosshótelinu á Reykholti.
Það var sæll og sáttur hópur sem renndi upp að Grensáskirkju um sexleytið eftir viðburðarríka ferð og frábæra samveru. Góð stemning var í hópnum og var mikið sungið og trallað í rútunni í ferðinni.
Stjórnin þakkar öllum þátttakendum kærlega fyrir samfylgdina í þessari skemmtilegu ferð og hlakkar til áframhaldandi félagsstarfs eftir sumarhlé.
Hægt er að skoða myndir úr ferðalaginu á myndasíðu félagsins hér á heimasíðu félagsins, undir heitinu Dagsferð 27.5.2024.



Comments