Fjölbreytt dagskrá á nóvemberfundi
- Stjórnin
- Nov 26
- 1 min read

Yfir sextíu konur mættu á kaffifund félagsins mánudaginn 3. nóv. síðastliðinn enda hið sívinsæla happdrætti á dagskrá. Frábær mæting og hlý stemming.
Í upphafi fundar var Eddu Lýðsdóttur, félagskonu og fyrrum stjórnarkonu í félaginu, minnst en hún lést skyndilega þann 19. október síðastliðinn. Edda var einstaklega virk í félaginu og verður hennar sárt saknað.
Hrafnhildur Hreinsdóttir mætti á fundinn og kynnti barnabækur sem hún hefur skrifað og gefið út um stúlkuna Gling Gló og vin hennar Óbó. Út eru komnar fjórar bækur um Gling Gló og eru þær til sölu víða í bókabúðum. Áhugasamir geta lesið meira um bækurnar á vefsíðunni www.glinglo.is
Guðný Þorvaldsdóttir okkar fékk örlítinn glaðning frá félaginu í tilefni af 80 ára afmæli hennar og svo var árlegt happdrætti félagsins keyrt áfram af þeim systrum Oddnýju Völu og Höllu, sem eru að verða nokkuð sjóaðar í bransanum.
Úrval vinninga var í boði.
Vel gekk að afla vinninga og greinilegt að félagskonur eru gjafmildar, listrænar og eiga líka góða að sem gauka að félaginu vinningum.
Þess má geta að happdrættismiðarnir seldust upp en happdrættið er ein stærsta fjáröflun félagsins til góðgerða. Kærar þakkir fyrir örlætið, yndislegu félagskonur!
Kaffihlaðborðið svignaði undan gómsætum veitingum, líkt og venjulega og á kaffinefnd fundarins hrós skilið!
Við hlökkum til að sjá sem flestar á desemberfundi félagsins sem haldinn verður mánudaginn 1. desember nk.






Comments