Sumarlandið hefur fengið góðan liðsauka
- Stjórnin
- Oct 28
- 1 min read

Edda Lýðsdóttir, fyrrum stjórnarkona og félagskona í Félagi austfirskra kvenna í Reykjavík um langt árabil, er látin. Útför Eddu fer fram frá Fríkirkjunni í Hafnarfirði fimmtudaginn 30. október kl. 13:00.
Edda var mjög virk í félaginu og mætti vel á fundi. Hún var kvenna hressust á fundi félagsins nú í byrjun október sl. og því kom andlátsfregnin okkur öllum í opna skjöldu.
Á októberfundinum var bleikt þema og Edda tók auðvitað fullan þátt í stemmingunni. Hún mætti í fallegri lopapeysu með bleiku mynstri sem vakti mikla aðdáun og athygli.
Við í stjórn félagsins skynjuðum vel hennar hlýja hug til félagsins. Eddu var annt um sögu félagsins og varðveislu heimilda. Hún var búin að afhenda stjórninni myndir af fundum og ferðalögum félagsins frá fyrri árum. Búið er að skanna þær myndir inn og merkja þær flestar með upplýsingum frá Eddu sem þeim fylgdu. Myndirnar hennar er að finna hér á heimasíðunni á myndasíðu félagsins.
Stjórn Félags austfirskra kvenna þakkar Eddu fyrir hennar ómetanlega framlag til félagsstarfsins í gegnum tíðina og vottar eiginmanni hennar, afkomendum og aðstandendum öllum, dýpstu samúð.
Við eigum eftir að sakna Eddu úr félagsstarfinu en sumarlandið hefur sannarlega fengið góðan liðsauka. Það er auðvelt að hugsa sér að þar sé dekkað reglulega upp glæsilegt kaffiborð fyrir félagskonurnar okkar sem þangað eru komnar, líkt og við gerum í félagsstarfinu. Væntanlega mikið spjallað um allt og ekkert yfir kaffisopanum.
Blessuð sé minning Eddu Lýðsdóttur.
Stjórnin
Mynd: Edda í góðum hópi félagskvenna frá Seyðisfirði á aðalfundi félagsins í mars 2025.



Comments