Ein Beta hlaut glaðning og önnur Beta gaf glaðning
- Stjórnin
- Feb 5
- 2 min read

Febrúarfundur félagsins fór fram mánudaginn 3. febrúar sl. í Grensáskirkju.
Válegar veðurspár settu örlítinn strik í reikninginn en þó mættu 40 konur til fundar og nutu skemmtilegrar samveru yfir góðum veitingum. Það var hlýtt og notalegt í salnum og falleg ró yfir hópnum. Stressið var greinilega algerlega skilið eftir heima enda alltaf tilhlökkunarefni að hittast.
Vopnfirðingurinn Elísabet Reynisdóttir næringarfræðingur talaði inn í hjörtu viðstaddra um ýmsa þætti sem geta bætt okkar lífshætti og líðan. Hún kynnti bók sína Þú ræður, sem gefin var út á síðasta ári og inniheldur þrautreyndar leiðir fyrir einstaklinga sem vilja bæta eigin heilsu. Urðu frábærar umræður á fundinum um ýmislegt sem betur má fara varðandi það sem við setjum ofan í okkur og það sem er á boðstólum fyrir okkar besta fólk í mötuneytum, t.d. í skólum og á heilbrigðisstofnunum. Konurnar í félaginu búa yfir margvíslegri reynslu og mikilli þekkingu og var samtalið því dýrmætt. Beta lauk máli sínu með því að bjóða öllum félagskonum á fræðsluerindi sitt í húsnæði Hjálpræðishersins 5. febrúar nk.
Elísabet Magnúsdóttir félagskona átti merkisafmæli á milli funda og afhenti formaður henni hefðbundinn glaðning frá félaginu við það tækifæri. Myndin hér fyrir ofan er af Betu (t.v.) og Oddnýju Völu, formanni félagsins.
Sigurbjörg Bjarnadóttir, fyrrverandi formaður félagsins, steig í pontu og þakkaði félagskonum innilega fyrir veitta samúð og stuðning vegna fráfalls Jóhannesar eiginmanns hennar, sem studdi ætíð dyggilega við starf félagsins með ýmsum hætti í gegnum árin.
Hópurinn tók auðvitað lagið enda þorrinn yfirstandandi og þá þurfa allir að þenja aðeins söngröddina.
Rætt var lauslega um ýmis hagnýt atriði fyrir aðalfund félagsins sem haldinn verður 3. mars nk. en allar upplýsingar hvað hann varðar verða birtar á miðlum félagsins með góðum fyrirvara.
Eins var stuttlega rætt um mögulega áfangastaði fyrir vorferð félagsins í maí nk.
Stjórnin þakkar fyrir góða mætingu og skemmtilega samveru.




Comments