Hugguleg stemning á októberfundi félagsins
- Stjórnin
- Oct 9
- 1 min read

Hugrekki, sjálfstraust, hrós og kærleikur voru í öndvegi á októberfundi félagsins 6. október sl. Fundurinn gaf gott í hjartað og var dásamlegt að finna þá jákvæðu og hlýju stemningu sem ríkti í salnum. Fundarkonur mættu margar í bleiku, í tilefni af Bleikum október.
Elísabet Heiða Harðardóttir flutti fyrirlesturinn Sterkari konur - sterkari framtíð. Fyrirlesturinn féll heldur betur vel í kramið hjá fundarkonum enda innihald hans virkilega hvetjandi. Elísabet Heiða, ræddi meðal annars hugrekki, sjálfstraust og fyrirmyndir. Félagið kann henni bestu þakkir fyrir.
Halla Kjartansdóttir kynnti og sýndi stórskemmtilega handavinnuhugmynd. Um er að ræða trefil sem Halla fékk að gjöf frá æskuvinkonu sinni og endurspeglar hitastigið kl. 12 á hádegi á Kambanesi við Stöðvarfjörð allan desembermánuð árið 1967, sem er fæðingarmánuður Höllu. Vakti trefillinn mikla athygli enda hugmyndin og útfærslan á verkefninu algjör snilld.
Kaffihlaðborðið var sérlega glæsilegt og var bleiki liturinn þar ráðandi.
Næsti fundur verður haldinn mánudaginn 1. nóvember og þá verður hið árlega happdrætti félagsins.
Endilega takið daginn frá!




Comments