Frábær febrúarfundur
- Stjórnin
- Feb 7, 2024
- 2 min read

Þrátt fyrir vetrarfærð og skammdegi þá var frábær mæting á fyrsta fund félagsins á nýju ári. Ríflega 40 konur mættu til fundar og var góð stemning í hópnum og umræður líflegar í salnum.
Djúpavogsdísirnar, eins og við köllum félagskonurnar frá Djúpavogi, sáu um kaffiveitingarnar að þessu sinni, með aðstoð félagsins, og var sko ekkert slegið af í þeim efnum. Pönnsur með rjóma og dýrindis hnallþórur sem runnu ljúflega niður. Kunnum við þeim bestu þakkir fyrir!
Jónína Dagmar Ásgeirsdóttir frá Djúpavogi flutti á fundinum fróðlegt erindi um formæður hennar. Erindið gaf góða innsýn í líf fólks á 19. og 20. öldinni og þá baráttu sem fólk á þeim tíma háði. Í erindi hennar fólst einnig kveðskapur formæðra hennar, sem var mjög lýsandi um aðstæður og tilfinningar þeirra. Virkilega góð áminning til okkar sem allt til alls, um lífsbaráttuna hjá þeim sem á undan okkur fóru.
Jóhanna Þóroddsdóttir félagskona varð 90 ára þann 11. janúar sl. og var henni afhentur glaðningur frá félaginu með þakklæti fyrir hennar góða framlag til félagsins. Salurinn tók undir hamingjuóskirnar með þéttu lófataki. Myndin hér fyrir ofan er af Jóhönnu og Oddnýju Völu, formanni félagsins.
Systurnar Oddný Vala og Halla leiddu fjöldasöng og kræktu fundargestir saman höndum og sungu Þorraþrælinn svo undir tók í salnum. Halla stjórnaði svo söng og hreyfingu þar sem sungið var um hangikjötslæri, súran hval og pillaðar rækjur og gerðar ýmsar æfingar undir söngnum. Allir tóku þátt og varð heilmikið fjör út úr þessu.
Þær systur drógu líka fram brandaraspilastokk móður þeirra, sem þær sögðu að hún bæri með sér hvert sem hún færi til að kynda upp gleðina. Voru lesnir upp nokkrir skemmtilegir brandarar, sem félagskonur drógu úr spilastokknum og voru hlátrasköllinn svo hávær að þau hafa áreiðanlega heyrst um allt Hvassaleitið!
Það er ekkert betra á mánudagskvöldi í febrúar en að hlægja og hafa gaman saman.
Næsti fundur verður fyrsta mánudag í mars en það er jafnframt aðalfundur félagsins. Þá verður matarhlaðborð í stað kaffiveitinga.
Nánari tilhögun og dagskrá verður auglýst hér á síðunni fljótlega.







Comments