Frábær mæting á aprílfund félagsins
- Stjórnin
- Apr 14, 2024
- 1 min read

Yfir fimmtíu konur mættu á aprílfund félagsins 8. apríl sl.
Það var vorhugur í mannskapnum enda var fyrirhuguð dagsferð félagsins kynnt. Áætlað er að fara í uppsveitir Borgarfjarðar 25. maí nk. og eins gott að taka daginn strax frá. Ferðin verður kynnt á miðlum félagsins innan skamms.
Tvær félagskonur sem nýlega áttu merkisafmæli fengu afhentan afmælisglaðning frá félaginu ásamt hlýjum kveðjum og þökkum fyrir þeirra framlag til félagsins. Það voru Fáskrúðsfirðingarnir Sigurbjörg Bjarnadóttir, fyrrverandi formaður félagsins, sem varð áttræð 2. apríl sl. og Erla Skaftadóttir sem varð 70 ára 12. febrúar sl. Á myndinni sem hér fylgir eru þær Sigurbjörg og Erla, ásamt Oddnýju Völu, formanni félagsins.
Á fundinum var spilað spilabingó og var frábær þátttaka í viðburðinum enda vinningarnir ekki af verri sortinni. Einhverjir höfðu laufaásinn grunaðan um svindl og svínerí því hann tróð sér framarlega í alla stokka sem lesnir voru upp, til gagns fyrir suma en alls ekki alla :-). Systurnar Oddný Vala og Halla sáu um bingóið og voru þær orðnar lafmóðar af öllum upplestrinum enda spilaðar hátt í 30 umferðir á methraða.
Kaffihlaðborðið var glæsilegt að vanda og voru það konur frá Breiðdal/Breiðdalsvík og Stöðvarfirði sem höfðu umsjón með veitingunum að þessu sinni.
Vert er að minna á að allar fundargerðir frá fundum félagsins er að finna hér á heimasíðunni undir liðnum Starfsemin og þar undir Fundargerðar. Til að einfalda leiðina er líka hægt að smella hér: FUNDARGERÐIR.
Framundan er fundarhlé fram í september þar sem maíviðburðurinn að þessu sinni er dagsferð félagsins.



Comments