Velkomin á vefsíðu Félags austfirskra kvenna í Reykjavík
- Stjórnin
- Mar 7, 2023
- 2 min read
Updated: Sep 6, 2023
Skjáumst! segja menn stundum í gríni þegar fundað er í gegnum fjarfundabúnað, með tilvísun í að þá er fólk ekki að sjást eða hittast í eiginlegum skilningi heldur sjá hvert annað á skjánum.
Á kórónuveirutímum þá uppgötvuðum við mikilvægi tækninnar þegar takmarkanir voru á samskiptum og samkomum og við gátum bara séð okkar kærasta fólk í gegnum tölvur og snjallsíma.
Vefsíður eru nokkurs konar gluggi til að koma boðskap og starfsemi á framfæri við áhugasama. Nauðsynlegar til kynningarstarfs en ekki síður mikilvægt tól til að geyma sögulegar heimildir og tryggja gegnsæi og góða stjórnarhætti. Vefsíður geyma fundargerðir, myndir, lög og regluverk en einnig eru þær skemmtilegur vettvangur til að endurspegla starfsemina.
Í tilfelli Félags austfirskra kvenna í Reykjavík þá er hún ekki síst hugsuð til að spegla þá gleði sem félagskonur finna í að hittast með reglubundnum hætti til að spjalla, hlægja, syngja, jafnvel dansa, smakka góðgæti, prjóna, virða, skilja, hjálpa, ferðast, njóta og upplifa.
Að sumra mati var kominn tími á að uppfæra „glugga” félagsins, sem hafði hingað til að mestu verið í formi munnlegra upplýsinga frá móður til dætra, félagskvenna til vinkvenna.
Með vefsíðunni vonumst við til að félagskonur fái nú í hendurnar leið til að vísa áhugasömum konum, með tengingu við Austurland, á almennar upplýsingar um félagið, fróðleik og sögulegar heimildir sem smám saman munu verða settar hér inn eftir því sem innskönnun fundargerða og mynda mjakast áfram.
Ný stjórn, sem skipuð var á aðalfundi félagsins 6. mars 2023, er á fullu að lesa sér til um allt og ekkert í gögnum félagsins og án efa verða settir hér inn skemmtilegir molar úr fortíðinni, sem er okkur svo mikilvæg í bland við nútíð og framtíð.
Við hlökkum til að eiga með ykkur samleið og hvetjum ykkur til að hafa skoðun á vefsíðu félagsins því að hún er fyrir ykkur. Allar ábendingar um það hvað við getum gert til að bæta síðuna og gera hana þannig úr garði að hún nýtist sem flestum og oftast, þiggjum við með þökkum.
Halla Kjartansdóttir, ritari stjórnar, vann síðuna frá A-Ö og sparaði þannig kostnað sem annars hefði hlotist við kaup á slíkri vinnu. Mánaðargjald vegna vistunar á síðunni og árgjald léns verður fjármagnað með öðrum hætti en af tekjum félagsins, a.m.k. þar til ljóst er að hún nýtist í starfi félagsins og þyki gagnleg.
Gjörið svo vel!



Comments