Félagið gefur til Píeta samtakanna
- Stjórnin
- Sep 2
- 2 min read

Fyrsti fundur félagsins á þessar haustönn var ekkert minna en frábær enda á fimmta tug frábærra kvenna mættur til leiks!
Á fundinum var Píeta samtökunum veittur styrkur að upphæð kr. 250.000 frá félaginu, til stuðnings við nýlega starfsstöð samtakanna sem staðsett er á Reyðarfirði.
Guðrún Birna, markaðs- og kynningarstjóri samtakanna veitti styrknum viðtöku og talaði beint inn í hjörtu viðstaddra.
Hún minnti á átakið Gulur september, sem einmitt hófst í gær og ræddi þá þjónustu sem samtökin veita, bæði varðandi forvarnir og einnig með stuðningi við aðstandendur og syrgjendur.
Félagskonur í „austfirskum”, eins og við köllum stundum félagið okkar, eru stoltar af því að samverustundirnar á félagsfundum gefi af sér fé til góðgerðamála af þessu tagi en framlög einstaklinga, félagasamtaka og fyrirtækja eru líflína margra samtaka sem sinna lífsnauðsynlegu starfi í samfélaginu.
Styrknum fylgdu hlýjar kveðjur frá félaginu og þakkir til Píeta samtakanna fyrir þeirra mikilvæga starf.
Á fundinn komu einnig tveir góðir gestir, þeir Albert Eiríksson sem kynnti nýútgefna matreiðslubók sína og Óli Geir sem stendur fyrir dansleikfimi í Mjódinni, fyrir 60+. Báðir eru þeir eldhressir og skemmtilegir og rifu upp stemminguna i salnum, hvor með sínum hætti.
Það verða örugglega margir góðir réttir fram reiddir á heimilum félagskvenna næstu vikurnar og áhersla lögð á hollustu (með pínu svindli inni á milli, segir Albert!). Var nánast slegist um bækurnar hans Alberts enda má segja að hann sé „góðkunningi” félagsins.
Óli Geir fékk fundarkonur til að losa aðeins um hinar „skandinavísku mjaðmir”, sem eru víst í stífari kantinum að hans sögn og fengu félagskonur skemmtilega hreyfingu undir ljúfum suður-amerískum tónum.
Stefanía Sigurðardóttir kvað sér hljóðs og ræddi aðstæður aðstandenda Alzheimerssjúklinga, hversu erfitt það er að fá aðstoð þegar heilsan versnar skyndilega og álagið sem skapast á maka sjúklinga. Var virkilega hollt að hlýða á hennar reynslu í þessum efnum og umhugsunarvert hvernig þessi mál standa.
Fjórar félagskonur sem áttu merkisafmæli í sumar fengu örlítinn afmælisglaðning frá félaginu, þær Margrét Aronsdóttir og Pálína Karlsdóttir sem báðar fögnuðu 80 ára afmæli á milli funda. Þær Birna Guðmundsdóttir og Hjördís Hrund Ingvarsdóttir, sem urðu 60 ára í sumar voru fjarverandi en fá afmælisglaðninginn sinn heimsendan. Auðvitað var svo rætt um fyrirhugaða skvísuferð á Skagann 13. september nk. en ferðin verðskuldar sérstaka færslu hér á síðunni.
Já, það er ekki nema von að við höfum verið sælar og glaðar eftir gærkvöldið. Stjórnin þakkar fyrir frábæra mætingu og dásamlega samveru.
Næsti fundur verður mánudaginn 6. október nk. kl. 20:00.







Comments