Garnkynning og tónlistarflutningur á aprílfundi
- Stjórnin
- Apr 6, 2023
- 1 min read
Aprílfundur félagsins fór fram 3. apríl síðastliðinn og mættu á hann 25 konur. Margar konur voru á ferð og flugi um heiminn enda páskar framundan og því var heldur fámennt en góðmennt.
Björg S. Blöndal, fráfarandi formaður félagsins, hélt stutta ræðu og hlaut þétt lófatak frá salnum og þakkir fyrir góð störf í formannsembættinu. Björg forfallaðist þegar aðalfundur félagsins var haldinn í mars sl. og gat ekki móttekið þakkirnar þar eins og aðrar fráfarandi stjórnarkonur.
Garnverslunin bobby.is í Hveragerði var með garnkynningu á fundinum en þær selja m.a. vinsælt endurskinsgarn. Ekki er að efa að það verða til fallegar afurðir úr því garni sem félagskonur keyptu á fundinum.
Jóna Svandís Þorvaldsdóttir söng fjögur lög við undirleik Davíðs Thoroddsen Guðjónssonar og fengu þau góðar undirtektir. Þau eiga bæði tengsl austur á firði og gáfu sitt framlag til fundarins. Kann félagið þeim bestu þakkir fyrir skemmtilegan flutning og velvilja til félagsins.
Undirbúningur er hafinn fyrir haustferð félagsins sem verður farin 16. september nk. til Grindavíkur og nágrennis. Fyrirkomulag og dagskrá verða kynnt nánar síðar.
Myndirnar með færslunni eru af Jónu Svandísi og Davíð annars vegar og Björgu, fráfarandi formanni hins vegar.





Comments