Gleðilega jólahátíð!
- Stjórnin
- Dec 24, 2024
- 2 min read

Frábært ár er senn á enda í félagsstarfi Félags austfirskra kvenna í Reykjavík.
Félagið hefur dafnað og vaxið á árinu og hefur þátttakan í verkefnum félagsins farið fram úr öllum væntingum. Aðalfundur félagsins var sérlega skemmtilegur með glimmerþema, farin var vel heppnuð vorferð í Borgarfjörðinn í maí og á árinu voru haldnir fjölbreyttir sjö mánudagsfundir þar sem ýmislegt var gert til skemmtunar. Margir lögðu til fundanna í formi skemmtiatriða, fræðslu og kaffiveitinga og hljóta kærar þakkir fyrir. Allt starfið er byggt á sjálfboðaliðastarfi og það er ekki að spyrja að gjafmildi og ósérhlífni Austfirðinga.
Konur af nánast öllum fjörðunum mæta á fundi og aldursdreifingin í félaginu hefur náð góðu jafnvægi. Má segja að félagið sé á góðri leið með að ná aftur fyrri styrk en það var mjög öflugt hér á árum áður. Kórónuveirufaraldurinn lék félagsstarfið grátt eins og svo margt í samfélaginu en samstaða austfirskra kvenna er sterk sem og löngunin til að hittast og treysta vinabönd og nú virðast allir vegir færir.
Það felst í því mikill kraftur að koma saman hópi kvenna með austfirskar rætur og veita þeim vettvang til að styrkja tengsl, ræða málefni sem eru þeim hugleikin, láta gott af sér leiða og hafa gaman saman. Með stækkandi félagi aukast svo möguleikarnir á því að geta gert gagn í samfélaginu og styrkja fleiri góð málefni.
Á árinu studdi félagið myndarlega við stuðningsfélagið Kraft, keypti blóðþrýstingsmæla fyrir heimahjúkrun á fjörðunum og styrkti fjölskyldu í Neskaupstað sem átti um sárt að binda. Einnig var Hringurinn með vörusölu á desemberfundi félagsins, til styrktar Barnaspítalasjóð Hringsins.
Félagskonur og þátttakendur í starfinu hafa sýnt félaginu mikinn velvilja á árinu og lagt sitt af mörkum til að efla starfið og skemmta sér og öðrum. Stundum göngum við stjórnarkonur örlítið þreyttar til fundar eftir annasaman vinnudag en það gleymist eins og skot þegar við lítum yfir salinn, heyrum bjart skvaldrið á öllum borðum og sjáum öll brosin og gleðina sem fylgir því að hitta nýja og gamla vini og eiga í raunverulegum samskiptum við fólk á hversdagslegu mánudagskvöldi sem annars hefði farið í sjónvarps- eða símagláp :-).
Stjórn félagsins lítur björtum augum á komandi ár og hlakkar mikið til fyrsta fundar ársins 2025 sem haldinn verður fyrsta mánudag í febrúar því samkvæmt venju tökum við fundarhlé í janúar.
Megi jólahátíðin færa ykkur öllum og fjölskyldum ykkar frið og gleði og árið 2025 verða ykkur farsælt og hamingjuríkt!
Kærleikskveðjur frá stjórn félagsins



Comments