Heimasíðu hleypt af stokkunum á septemberfundi félagsins!
- Stjórnin
- Sep 5, 2023
- 2 min read

Það var mikil stemming á septemberfundi félagsins í gær, 4. september þar sem á fimmta tug austfirskra kvenna kom saman á fyrsta fundi eftir hlé frá því í maí sl. Hugur var í fundarkonum enda spennandi viðburðir framundan í starfinu.
Félagskonum fjölgaði þetta kvöld, sem er afar ánægjulegt. Áhersla er lögð á nýliðun í félaginu þessa mánuðina, til að keyra aftur upp kraftinn í félaginu, eftir COVID árin sem slitu í sundur félagsstarfið.
Á fundinum fór Oddný Vala, formaður félagsins, yfir helstu verkefni sem framundan eru og fundina fram að áramótum. Hæst ber þar dagsferð félagskvenna til Grindavíkur og nágrennis 16. september nk. og samstarfsverkefni með Albert Eiríkssyni í október.
Sigurbjörg Bjarnadóttir, umsjónaraðili minningarsjóðs félagsins, skýrði fyrirkomulag á sölu minningarkorta og hvatti félagskonur til að nýta sér þessa þjónustu og styrkja í leiðinni gott málefni.
Heimasíða félagsins, á vefslóðinni www.austfirskar.is, var formlega opnuð á fundinum en þar er hægt að lesa fróðleik um félagið, bæði um uppruna þess og starfið í dag. Vonast stjórnin til að heimasíðan muni hjálpa til við nýliðun í félaginu og koma betur á framfæri því góða starfi sem unnið er af félagskonum.
Fjórar félagskonur áttu merkisafmæli frá því að síðasti fundur fór fram og fengu þær afmælisglaðning frá félaginu; rós, heklaðan englavæng og hlýjar óskir. Tvær þeirra voru mættar á fundinn og veittu glaðningnum viðtöku en hinar tvær sem ekki gátu mætt fá heimsendingu.
Fundurinn samþykkti einróma hækkun á fundargjaldi, úr 1.500 í 2.000,-.
Verðið er enn mjög hagstætt, sé tekið mið af veitingum á kaffihúsum bæjarins og enginn verður svikinn af hlaðborðinu góða. Þar sem kaffinefnd hvers fundar gefur veitingarnar og vinnu sína þá rennur fundargjaldið beint til félagsins, sem með öruggari tekjuöflun getur eflt enn frekar styrkveitingar til góðra málefna.
Kaffiborðið rómaða svignaði undan kræsingum og gerði stormandi lukku að venju.
Mikið var spjallað og hlegið og greinilegt að félagskonur eru ánægðar með að starfsemin er aftur komin á fullt eftir góða sumarhvíld.




Comments