Hátíðlegur jólafundur
- Stjórnin
- Dec 11, 2023
- 2 min read

Jólafundur félagsins fór fram mánudaginn 4. desember sl.
Frábær mæting var á fundinn enda dagskráin bæði fjölbreytt og hátíðleg.
Það má segja að fall hafi verið fararheill því þegar fundurinn var um það bil að hefjast þá fór brunabjalla kirkunnar í gang með miklum látum. Tók drjúgan tíma að leysa úr þeim málum og þá var heppilegt að hafa hlaðborð af góðum veitingum til að njóta, á meðan ekki var hægt að halda hefja formlega dagskrá. Allt leystist þetta þó farsællega og gekk fundurinn snurðulaust eftir þessa hávaðasömu uppákomu :-).
Séra Alfreð Örn Finnsson flutti á fundinum skemmtilegan pistil með skemmtilegar tilvísanir í lífið og tilveruna fyrir austan. Hann þjónaði í Austfjarðasókn um nokkurra ára skeið en er nú sóknarprestur í Digraneskirkju.
Systurnar Sara Lovísa og Silja Katrín Gunnarsdætur fluttu nokkur falleg lög með aðstoð móður sinnar, Jónu Svandísar Þorvaldsdóttur. Þær sungu hátíðarstemningu blítt og fallega inn í hjörtu fundargesta, þannig að allir hrifust með. Upprennandi söngkonur þarna á ferðinni. Þær mæðgur luku sínum flutningi á því að syngja Heims um ból og tók allur salurinn undir.

Benný Sif Ísleifsdóttir rithöfundur kynnti nýjustu afurð sína, barnabókina Einstakt jólatré, sem er nýlega komin út. Benný Sif las upp úr bókinni til að gefa fundargestum innsýn í þessa skemmtilegu og fallegu sögu. Bókin er fallega myndskreytt af Linn Janssen. Benný Sif hefur gefið út nokkrar rómaðar skáldsögur síðustu árin og má þar nefna bókina Grímu og tvær bækur um Gratíönu (Hansdætur og Gratíana).

Með tilvísun í bókatitil Bennýjar þá sýndi Halla Kjartansdóttir, ritari stjórnar, fundinum sitt „einstaka” jólatré sem hún valdi sér á jólamarkaði Kaupfélags Stöðfirðinga í aðdraganda jólanna árið 1970, í gjöf frá foreldrum sínum. Það er dálítil saga á bak við þessa gjöf og árið 2016 sendi Halla þá sögu inn í samkeppni hjá VR. Hún hreppti þar sigurverðlaunin, sem voru þau að VR gaf eina milljón króna til UNICEF í nafni Höllu, til að styðja við stríðshrjáð börn í Sýrlandi. Jólatréð, sem er lítið og kræklótt, spilaði því óvænt stórt hlutverk í góðgjörð í þágu barna.
Fundurinn endaði á hinu sívinsæla jólahappdrætti félagsins. Félagskonur voru einstaklega örlátar á vinninga og einnig iðnar við að afla þeirra með ýmsum hætti. Sumir lögðu fram eigið handverk og aðrir höfðu milligöngu um vinninga frá fyrirtækjum, einstaklingum og listafólki. Stjórn félagsins þakkar öllum sem lögðu til vinninga kærlega fyrir þeirra stuðning.
Félagið kostaði flestar veitingar á hlaðborð kvöldsins að þessu sinni en nokkrar félagskonur lögðu einnig til kræsingar og fá þær bestu þakkir fyrir. Guðný Sölvadóttir hitaði ljúffengt súkkulaði ofan í fundargesti, eins og henni einni er lagið, sem gerði fundinn enn hátíðlegri. Stjórnin sá um önnur kaffinefndarstörf.
Samkvæmt venju verður nú gert fundarhlé fram í febrúar þannig að næsti fundur félagsins verður haldinn mánudaginn 5. febrúar kl. 20.








Comments