Húsfyllir á októberfundi félagsins!
- Stjórnin
- Oct 3, 2023
- 2 min read
Updated: Oct 5, 2023

Októberfundur félagsins fór fram í gær, 2. október, kl. 20. Fundurinn var að þessu sinni haldinn í safnaðarheimili Grensáskirkju, sem framvegis mun hýsa starfsemi félagsins þar sem Biskupsstofa flytur í húsnæðið sem félagið hefur nýtt til þessa.
Salurinn er bjartur og fallegur og öll aðstaða góð fyrir starfsemina.
Fundurinn var óvenjulegur vegna samstarfs við Albert Eiríksson fyrir umfjöllun hans í jólablaði Húsfreyjunnar. Félagskonur tóku að sér að útbúa jólalegar veitingar til ljósmyndunar fyrir blaðið og var því stöðugur straumur kvenna í Grensáskirkju frá miðjum degi og fram að fundi, með girnilegar hnallþórur og góðgæti. Salurinn var jólalega skreyttur og fundarkonur mættu hátíðlega klæddar til fundar.
Veitingarnar, ja hvað skal segja - þær voru ekkert minna en himneskar! Það vita þær sem mættu til leiks því að veitingarnar fínu voru allar bornar fram á kaffihlaðborð kvöldsins.
Mætingin var ekkert minna en stórkostleg því húsfyllir varð og þurfti að bæta við borðum og stólum til að koma öllum fyrir. Á fundinn voru mættar konur með uppruna frá Djúpavogi til Seyðisfjarðar og allt þar á milli. Það urðu fagnaðarfundir víða í salnum og knúsin mörg og hlýleg.
Það var mikill kraftur í loftinu og ljóst er að félagið hefur öll tækifæri til að eflast og dafna í framtíðinni ef það næst að beisla alla þessa frábæru orku inn í félagsstarfið. Sérlega flottur hópur af glæsilegum konum saman kominn!
Albert ávarpaði fundinn í upphafi fundar og þakkaði félaginu kærlega fyrir aðstoðina og ekki síst þeim konum sem lögðu til veitingarnar.
Jóna Jónsdóttir fékk afhentan afmælisglaðning frá félaginu í tilefni 90 ára afmælis hennar í september sl., með þökkum fyrir hennar góða framlag til félagsins í gegnum árin. Þess má geta að félagsgjöld í félaginu falla niður við 90 ára aldurinn.
Kristín María Kristmannsdóttir og Eva Ásgeirsdóttir frá Snyrtistofunni Vár kynntu snyrtivörurnar frá Comfort Zone og lögðu línurnar inn í haustið. Flottar, hreinar og umhverfisvænar vörur sem eru tilvaldar í jólapakkana.
Silla, ljósmyndari fyrir Húsfreyjuna, lumaði á góðum ráðum varðandi uppstillingar fyrir ljósmyndatökur, sem voru vel þegin í aðdraganda jóla þegar allir eru með myndavélarnar á lofti.
Mikil ánægja var með nýju aðstöðuna og mætinguna á fundinn og gaf gleðin í salnum stjórninni byr undir báða vængi.
Nú er bara að leyfa sér að hlakka til næstu funda sem verða mánudaginn 6. nóvember og mánudaginn 4. desember. Endilega takið dagsetningarnar strax frá svo þið missið ekki af herlegheitunum!
Stjórnin sendir bestu þakkir til þeirra sem útbjuggu veitingar fyrir fundinn sem og til allra þeirra sem mættu á fundinn.








Comments