top of page
Search

Jólafundur í gulri veðurviðvörun!

  • Stjórnin
  • Dec 4, 2024
  • 2 min read
ree

Yfir 50 konur létu gula veðurviðvörun ekki stöðva sig og mættu á jólafund félagsins 2. desember sl. Það eru sko töggur í austfirskum konum!


Að venju svignaði kaffihlaðborðið af dýrindis veitingum og boðið var upp á heitt súkkulaði af bestu gerð, til hátíðabrigða. Fær kaffinefnd fundarins bestu þakkir fyrir góðmetið.


Á fundinum voru Hringskonur með varning til sölu til styrktar Barnaspítalasjóði Hringsins og var þar að finna mikið úrval af fallegu handverki. Það er ljóst að það fá einhverjir eitthvað hlýtt og mjúkt í pakkann fyrir þessi jól!


Jónína Dagmar Ásgeirsdóttir flutti fallega og ljúfa jólasögu sem byggð var á hennar eigin minningum frá jólum barnæskunnar. Gátu flestar fundarkonur tengt vel við frásögnina og þær væntingar sem börn hafa til jólanna.


Hið gríðarvinsæla jólahappdrætti sló í gegn eins og alltaf enda voru þar fjölmargir frábærir vinningar í boði. Vill stjórnin hér með koma á framfæri kærum þökkum til allra þeirra sem gáfu vinninga til happdrættisins.

Aðalvinningur kvöldsins var ekki af verri sortinni en þar var um að ræða nótt fyrir tvo á Hótel Örk, með morgunverði og kvöldverði á veitingastaðnum Haust. Það var fyrirtækið OH flutningar í Hveragerði sem gaf vinninginn en að fyrirtækinu standa hjónin Orri Sveinn Harðarson frá Fáskrúðsfirði og Kristín Bjarney Ársælsdóttir frá Stöðvarfirði. Fá þau sérstakar þakkir fyrir rausnarlegt framlag til félagsins. Sala happdrættismiða gekk afar vel, sem á eftir að koma sér vel fyrir næstu styrkveitingar félagsins.


Fundinn heimsótti einnig furðusveinn nokkur sem sendur var af stað af jólasveinunum, með gjafapoka handa öllum sem mættu á fundinn. Hafði hann öslað krapa og snjó á leiðinni austan að og lent í ýmsum ævintýrum á leiðinni, miðað við frásagnirnar! Jólasveinarnir höfðu gleymt að láta hann vita að það voru komin göng á milli Reyðarfjarðar og Fáskrúðsfjarðar svo hann öslaði allar Vattarnesskriðurnar eða „skreðurnar” eins og hann sjálfur sagði og var alveg freðinn eftir hrakfarirnar. Sem betur fer húkkaði hann sér far í borgina alla leið frá „Búlandstoppinum”, hvar sem hann er nú að finna... :-).

Allar fundarkonur fóru því heim með eitthvað af fundinum, líka þær sem ekki voru svo lánsamar að hljóta vinning í happdrættinu.


Í lok fundar var að venju sungið Heims um ból til að koma hátíðarskapinu alla leið að hjartanu og hefur ómurinn af þessum fallega sálmi örugglega fylgt fundarkonum til síns heima í slyddunni.

Það er nú einu sinni þannig að ef manni er hlýtt í hjartanu þá skipta veður og gular viðvaranir ekki neinu máli.


Stjórn félagsins þakkar öllum sem mættu kærlega fyrir skemmtilegan og fjörugan fund og hlakkar til næsta fundar sem verður fyrsta mánudag í febrúarmánuði því samkvæmt venju verður tekið fundarhlé í janúar.

ree
ree
ree
ree
ree

 
 
 

Comments


Austfirskar

  • Facebook

©2023 by Austfirskar. Proudly created with Wix.com

bottom of page