top of page
Search

Notalegur nóvemberfundur að baki

  • Stjórnin
  • Nov 8, 2023
  • 2 min read

Hátt í 60 austfirskar konur mættu til kaffifundar félagsins 6. nóvember sl. í safnaðarheimili Grensáskirkju.

ree

Frábær mæting hefur verið á fundi félagsins undanfarnar mánuði, sem er virkilega ánægjuleg þróun.

Elísabet Reynisdóttir næringafræðingur, betur þekkt sem Beta Reynis, hélt fróðlegt og uppbyggilegt erindi á fundinum um þætti sem geta hjálpað fólki til að bæta líf sitt. Hún ræddi þátt næringar í heilsu fólks en einnig fjallaði hún um áhrif jákvæðs viðhorfs til lífsins verkefna og um það val sem við öll höfum um það hvernig við mætum erfiðum verkefnum og áskorunum í lífinu. Erindið var mjög fróðlegt og hitti ýmsa í hjartastað, enda talar Beta út frá eigin lífsreynslu og því auðvelt fyrir hlustendur að tengja við málefnið. Það er alltaf gott að láta hnippa í sig og setja kúrsinn inn í framtíðina um aukin lífsgæði og gleði. Beta er frá Vopnafirði en á ættir sínar einnig að rekja til Reyðarfjarðar og hún flutti erindi sitt endurgjaldslaust, líkt og aðrir sem fram komu á fundinum. Félagið kann þeim öllum miklar þakkir fyrir stuðninginn.


Félagskonurnar Anna Þorsteinsdóttir (90 ára) og Dóra Gunnarsdóttir (80 ára) áttu stórafmæli í október og fengu þær afhentan afmælisglaðning og þakkir frá félaginu fyrir þeirra framlag til félagsstarfsins. Það var Oddný Vala formaður félagsins sem afhenti þeim glaðninginn.

ree

Sönghópurinn Jólabjöllurnar söng nokkur hugljúf jólalög fyrir fundarkonur. Jólabjöllurnar eru mjög uppteknar í desembermánuði enda vinsælar á jólaskemmtunum af öllu tagi en félagið var svo heppið að núna áttu þær lausa stund til að kíkja við og syngja jólastemminguna inn. Frábær flutningur hjá Jólabjöllunum og þær fá okkar bestu meðmæli.

Jóna Hallgrímsdóttir mætti með harmonikkuna og spilaði nokkur fjörug lög fyrir salinn, sem tók undir í söng og það sást líka til félagskvenna stíga dansspor á hliðarlínunni. Harmonikkan kveikir alltaf á fjörinu hjá fólki.

Hringskonur voru með söluborð á fundinum, sem svignaði af dásamlegu handverki. Allur ágóði af sölunni rennur til Barnaspítalasjóðs Hringsins. Gerðu margir góð kaup hjá þeim og ljóst að það verður ýmsu fallegu laumað í jólapakkana þetta árið.

ree
ree
ree

Fleiri myndir frá fundinum má finna með því að smella hér.

Desemberfundur félagsins verður haldinn mánudaginn 4. desember kl. 20 í safnaðarsal Grensáskirkju og þar verður hið árlega jólahappdrætti og margt fleira til skemmtunar.

 
 
 

Comments


Austfirskar

  • Facebook

©2023 by Austfirskar. Proudly created with Wix.com

bottom of page