Styrkur til stuðningsfélagsins Krafts
- Stjórnin
- Apr 9, 2024
- 2 min read

Á aðalfundi Félags austfirskra kvenna í marsmánuði var samþykkt að styrkja Stuðningsfélagið Kraft um 300.000 krónur.
Meginmarkmið Krafts eru að styðja við ungt fólk sem greinst hefur með krabbamein og aðstandendur, með því að halda úti jafningjastuðningi, hagsmunagæslu, öflugri fræðslu, samveru á jafningjagrunni, veita hagnýtar upplýsingar og stuðla að samvinnu félagasamtaka, heilbrigðisstarfsmanna og annarra sem koma að málefnum þeirra sem tengjast sjúkdómnum. Kraftur er eitt af aðildarfélögum Krabbameinsfélags Íslands.
Fulltrúar úr stjórn Félags austfirskra kvenna heimsóttu skrifstofu Krafts föstudaginn 5. apríl sl. og afhenti Oddný Vala Kjartansdóttir formaður félagsins þá styrkinn formlega til Krafts. Með styrknum fylgdu hlýjar kveðjur frá félaginu og góðar óskir til Krafts og starfsemi félagsins.
Þórunn Hilda Jónasdóttir, viðburða- og þjónustustjóri félagsmanna tók á móti styrknum fyrir hönd Krafts. Þórunn Hilda fór yfir helstu verkefni Krafts og þjónustu og sýndi aðstöðuna sem félagsmenn hafa aðgang að. Fram kom í máli Þórunnar Hildu að félagið væri afar þakklátt fyrir styrkinn enda starfsemi Krafts háð velvilja félagasamtaka, fyrirtækja og einstaklinga.
Fulltrúar okkar stjórnar fóru heim með þakklæti í hjarta fyrir Kraft og öll þau góðu félög sem grípa þá sem verða fyrir áföllum af ýmsum toga og sinna því mikilvæga hlutverki að leiða fólk áfram, hvetja og fræða á raunastundum.
Það er alltaf gott að fá vissu um að allt telur, jafnvel framlag okkar ágæta litla félags sem, þrátt fyrir smæðina, nær með sjálfboðaliðastarfi og velvilja að skapa styrki sem koma sér vel í þágu góðra málefna.
Til félagskvenna og allra þeirra sem mæta sem gestir á fundi félagsins viljum við segja:
ÞÚ LEGGUR ÞITT AF MÖRKUM
Árgjald, aðgangseyrir að kaffiveitingum, happdrættismiðakaup, bingó, basar o.fl.
Í STAÐINN FÆRÐ ÞÚ SAMVERU, SKEMMTUN, VINÁTTU OG GÓÐAR VEITINGAR
Gefur gott í hjartað!
SAMHLIÐA LEGGUR ÞÚ GÓÐUM MÁLEFNUM LIÐ
Safnast þegar saman kemur!
TAKK FYRIR ÞIG OG
ÞINN STUÐNING!




Comments